Kyle Walker, hægri bakvörður Manchester City, kveðst hafa faðmað Vinícius Júnior, vinstri kantmann Real Madríd, innilega eftir fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu þar sem hann hafi verið feginn því að sleppa við niðurlægingu.
Vinícius skoraði mark Real Madríd í 1:1-jafntefli og reyndi á einum tímapunkti í leiknum að leika á Walker með skemmtilegu bragði sem kennt er við regnboga, en tókst ekki.
„Ég fór og faðmaði hann því hann reyndi að regnbogaflikka boltanum yfir mig. Þetta sneri því mest að því að segja: „Vinsamlegast ekki reyna þetta aftur“. Ég vil ekki verða að jarmi (e. meme) eða einhverju svoleiðis,“ sagði Walker á blaðamannafundi fyrir síðari leik liðanna í kvöld.
Hann hefst klukkan 19 og fer fram á Etihad-leikvanginum í Manchester. Báðir léku þeir vel í fyrri leiknum og hlakkar Walker til þess að mæta Vinícius á ný.
„Hnefaleikakappar berjast vel og svo takast þeir í hendur að bardaganum loknum og ég myndi segja að það endurspegli þá virðingu sem ég ber fyrir honum.
Þetta er eins með alla leikmenn, þegar um góðan leik er að ræða sýnirðu þeim slíka virðingu því þeir eiga hana skilið,“ sagði bakvörðurinn einnig.
Dæmi um svokallað regnbogaflikk má sjá hér.