Bikarúrslitaleikur hjá Sveindísi og félögum

Sveindís Jane Jónsdóttir verður í baráttunni í dag.
Sveindís Jane Jónsdóttir verður í baráttunni í dag. Ljósmynd/Wolfsburg

Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar Wolfsburg taka á móti Freiburg í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar í fótbolta í dag.

Leikurinn verður spilaður í Köln og fyrir leik er Wolfsburg talið líklegra til sigurs. Wolfsburg hefur unnið síðustu þrjár viðureignir þessara liða í öllum keppnum og hefur ekki tapað fyrir Freiburg síðan árið 2017.

Wolfsburg situr í 2. sæti þýsku deildarinnar en Freiburg er í 6. sæti, 27 stigum á eftir Wolfsburg. Þetta er þó aðeins einn leikur í bikarkeppni þar sem allt getur gerst.

Wolfsburg hefur hinsvegar ekki tapað í þýsku bikarkeppninni síðan 16. nóvember 2013 þegar liðið tapaði á útivelli fyrir 1. FFC Frankfurt, það eru 3.470 dagar síðan það gerðist. 

Ef Wolfsburg vinnur í dag þá verður það í tíunda skipti sem félagið hampar bikartitlinum og slær félagið þá met. Annað met verður væntanlega sett í leiknum í dag en búist er við 40.000 áhorfendum á leikinn en fyrrum met í bikarúrslitaleik í Þýskalandi er frá árinu 2010 þegar 26.682 áhorfendur mættu á úrslitaleik þess árs.

Vonandi fær Sveindís Jane Jónsdóttir að spreyta sig í dag en hún hefur átt gott tímabil hjá Wolfsburg. Hún hefur spilað 30 leiki hingað til, skorað 9 mörk og gefið fjölda stoðsendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert