Geta enn komist í úrvalsdeildina

Atli Barkarson leikur með SönderjyskE.
Atli Barkarson leikur með SönderjyskE. mbl.is/Eggert Jóhannesson

SönderjyskE eygir enn von um að endurheimta sætið í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir afar mikilvægan útisigur á Hvidovre í dag, 2:1.

Þessi tvö lið slást um að fylgja Vejle upp í úrvalsdeildina og Hvidovre hefði verið komið upp með sigri. Liðið var með forystu, 1:0, þar til langt var liðið á leik en þá skoruðu Emil Frederiksen og José Gallegos tvö mörk á þremur mínútum og tryggðu SönderjyskE sigurinn.

Í Hvidovre ríkti mikil spenna því heimaliðið gat tryggt sér úrvalsdeildarsæti í fyrsta skipti í 26 ár og uppselt var á leikinn.

Atli Barkarson, sem hefur átt fast sæti í byrjunarliðinu undanfarna mánuði, lék síðari hálfleikinn með SönderjyskE en Orri Steinn Óskarsson missti af leiknum vegna meiðsla.

Þegar tveimur umferðum er ólokið er Vejle með 60 stig, Hvidovre 55 og SönderjyskE 52. Tvær umferðir eru eftir og bæði Hvidovre og SönderjyskE eiga eftir leiki við lið sem eiga ekki möguleika á að fara upp. Markatalan er Hvidovre í hag þannig að líkurnar eru gegn Íslendingafélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert