Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var ekki sammála leikmanni sínum, Jack Grealish, eftir að Manchester City tryggði sæti sitt í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í gær.
Grealish mætti í viðtal eftir leikinn í gær, sem City vann 3:0, og talaði um að liðið væri óstöðvandi.
„Þetta var ótrúlegt, að fá að upplifa þetta augnablik er frábært. Ég held að það séu ekki mörg lið sem geta gert þetta við Real Madrid en þegar við spilum sem lið, sérstaklega á heimavelli, þá líður okkur eins og við séum óstöðvandi.“ sagði Grealish.
Pep Guardiola sagði eftir leikinn að sigurinn væri einn sá stærsti á sínum ferli en sagðist vera ósammála Grealish og varaði sína menn við að ekkert lið væri óstöðvandi.
„Þetta er einn stærsti sigur ferils míns, sérstaklega þegar þú tekur inn í myndina að þetta var á móti Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Við urðum að spila vel og við gerðum það, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þetta var virkilega góð frammistaða.
Mér líkar ekki við að leikmenn séu að nota orðið „óstöðvandi“ því það er hægt að stoppa öll lið. Fótbolti getur breyst frá einum leik til annars og við þurfum að vera á tánum.“ sagði Guardiola eftir leikinn í gær.