Sevilla frá Spáni og Roma frá Ítalíu mætast í úrslitaleik Evrópudeildar karla í fótbolta eftir að þau slógu Juventus og Leverkusen út í undanúrslitunum í kvöld.
Juventus og Sevilla skildu jöfn í fyrri leiknum á Ítalíu, 1:1, og Juventus náði undirtökunum í kvöld með marki Dusans Vlahovic á 65. mínútu. Suso jafnaði fyrir Sevilla sex mínútum síðar og þar með þurfti að framlengja leikinn.
Erik Lamela, sem lagði markið upp fyrir Suso, kom Sevilla í 2:1 eftir fimm mínútur í framlengingunni. Marcos Acuna, leikmaður Sevilla, fékk rauða spjaldið þegar fimm mínútur voru eftir en Spánverjarnir héldu fengnum hlut.
Roma vann heimaleikinn gegn Leverkusen, 1:0, og hélt síðan jöfnu í seinni leiknum í Þýskalandi í kvöld.