Valgeir sænskur bikarmeistari

Valgeir Lunddal Friðriksson, til hægri, er bæði sænskur meistari og …
Valgeir Lunddal Friðriksson, til hægri, er bæði sænskur meistari og bikarmeistari. Ljósmynd/Häcken

Valgeir Lunddal Friðriksson og félagar í Häcken urðu í dag sænskir bikarmeistarar í knattspyrnu þegar þeir unnu afar öruggan sigur á Mjällby, 4:1, í úrslitaleiknum.

Þetta er annar stóri titill Valgeirs með Häcken sem varð sænskur meistari á síðasta ári. Hann lék allan leikinn í dag í stöðu hægri bakvarðar.

Leikið var á heimavelli Mjällby í Sölvesborg en það er hefðin í sænsku bikarkeppninni að leika úrslitaleikina á heimavelli annars liðsins.

Það breytti engu fyrir Häcken en Ibrahim Sadiq kom þeim í vænlega stöðu með tveimur mörkum á lokamínútum fyrri hálfleiks. Hann meiddist reyndar í fagnaðarlátunum eftir seinna markið og þurfti að fara af velli!

Mikkel Rygaard skoraði þriðja markið í byrjun síðari hálfleiks og Samuel Gustafson bætti við marki, 4:0, um miðjan hálfleikinn.

Mjällby komst á blað með sjálfsmarki undir lok leiksins.

Hér fagna leikmenn Häcken í búningsklefanum:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert