Danska knattspyrnukonan Pernille Harder yfirgefur enska félagið Chelsea þegar þessu keppnistímabili lýkur.
Chelsea staðfesti þetta í dag en Harder, sem hefur verið meðal fremstu knattspyrnukvenna heims um árabil, kom til Chelsea frá Wolfsburg árið 2020.
Fyrr í þessum mánuði voru fregnir um að Pernille og sambýliskona hennar Magdalena Eriksson myndu ganga til liðs við Bayern München í sumar. Þýska félagið hefur ekki staðfest skiptin enn sem komið er.
Pernille er þessa dagana í harðri baráttu með Lundínaliðinu um enska meistaratitilinn en Chelsea vann Dagnýju Brynjarsdóttur og samherja hennar í West Ham í gærkvöld, 4:0, og er með tveggja stiga forskot á Manchester United á toppi úrvalsdeildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir.
Pernille hefur skorað 44 mörk í 79 leikjum fyrir Chelsea á tæplega þremur árum og unnið enska meistaratitilinn, bikarkeppnina og deildabikarinn með félaginu. Hún varð einmitt bikarmeistari með liðinu á sunnudaginn síðasta þegar Chelsea vann Manchester United 1:0 í úrslitaleiknum frammi fyrir tæplega 80 þúsund áhorfendum á Wembley.
Meiðsli hafa hrjáð hana í vetur en hún sneri aftur í liðið í apríl og hefur spilað fimm síðustu leikina.
Pernille er þrítug og spilaði með Linköping í Svíþjóð í fjögur ár og síðan með Wolfsburg í þrjú ár. Hún er markahæsti leikmaður danska landsliðsins frá upphafi með 70 mörk og er fimmta leikjahæst með 140 landsleiki.