Glæsimark Bjarka á Ítalíu (myndskeið)

Bjarki Steinn Bjarkason leikur með Foggia, í láni frá Venezia.
Bjarki Steinn Bjarkason leikur með Foggia, í láni frá Venezia. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarki Steinn Bjarkason skoraði glæsilegt mark fyrir Foggia í gærkvöld þegar lið hans sótti Audace Cerignola heim í umspili um sæti í ítölsku B-deildinni í knattspyrnu.

Bjarki minnkaði muninn í 2:1 snemma í síðari hálfleik með bylmingsskoti úr þröngu færi hægra megin í vítateignum, sem sjá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan.

Þetta er þriðja markið sem Bjarki skorar í síðustu fjórum leikjum Foggia en hann er í láni hjá félaginu frá Venezia.

Markið dugði þó skammt því Audace bætti við tveimur mörkum, vann 4:1 og stendur því vel að vígi fyrir seinni leik liðanna á mánudaginn. Bjarki lék allan leikinn í gærkvöld.

Emil Hallfreðsson er í sama umspili með liði Virtus Verona, sem gerði jafntefli, 2:2, gegn Pescara á heimavelli. Emil lék síðari hálfleikinn en seinni leikurinn fer fram í Pescara á mánudaginn.

Þrettán lið eru enn eftir í umspilinu þar sem spilað er um eitt sæti í B-deildinni á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert