Serbneska knattspyrnufélagið Rauða stjarnan hefur tilkynnt að Milos Milojevic muni ekki halda áfram þjálfun karlaliðs félagsins, þrátt fyrir gott gengi liðins undir hans stjórn.
Milos, sem er Serbi með íslenskt ríkisfang, hefur náð virkilega góðum árangri með liðið síðan hann tók við því fyrir tímabilið. Er liðið þegar orðið serbneskur meistari og er bikarúrslitaleikur fram undan.
Þrátt fyrir það verður samningur hans við félagið ekki framlengdur og Milos fær því ekki tækifæri til að stýra sigursælasta liði heimalandsins í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.
Milos lék hér á landi um árabil og þjálfaði svo Víking úr Reykjavík og Breiðablik áður en hann hélt til Svíþjóðar til þess að taka við Mjällby. Hann stýrði síðar Hammarby og svo Malmö áður en hann hélt til heimalandsins.