Hópur stuðningsmanna AZ Alkmaar réðst á fjölskyldur leikmanna West Ham United að loknum leik liðanna í undanúrslitum Sambandsdeildar UEFA í knattspyrnu í Alkmaar í gærkvöldi.
West Ham vann leikinn 1:0, einvígið samanlagt 3:1 og tryggði sér þar með sæti í úrslitaleik keppninnar, þar sem liðið mun mæta Fiorentina.
Stuðningsmenn AZ réðust að stuðningsmönnum West Ham á ákveðnu svæði í áhorfendastúkunni þar sem fjölskyldur leikmanna og annarra starfsmanna félagsins voru staddar.
Leikmönnum Hamranna stóð ekki á sama og reyndu Michail Antonio, Said Benrahma og Jarrod Bowen til að mynda að skakka leikinn en öryggisverðir héldu þeim frá áhorfendastúkunni.
Samkvæmt BBC Sport voru stuðningsmennirnir sem um ræðir svartklæddir og földu andlit sín á meðan þeir réðust að fólki.
Útlit er fyrir að engan hafi þó sakað en lögreglan í Alkmaar mun rannsaka málið í samvinnu við AZ.
„Við þurfum að bíða eftir því að hægist um en stærsta vandamálið snýr að því að þetta var svæðið þar sem leikmenn eru með fjölskyldur sínar. Það var vandamálið.
Fjöldi leikmanna reiddist því þeir gátu ekki séð hvort það væri í lagi með fjölskyldur þeirra. Var ég áhyggjufullur? Já, fjölskyldan mín var þarna og vinir mínir.
Maður vonast til þess að þau reyni að koma sér burt frá þessu. Öryggisverðirnir vildu koma mér í skjól en ég varð að ganga úr skugga um að leikmennirnir væru ekki að taka þátt í þessu,“ sagði David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham.
BBC Sport greinir frá því að 87 ára gamall faðir Moyes hafi verið á umræddu svæði í áhorfendastúkunni.