Genoa hafði betur gegn Bari, 4:3, í miklum markaleik í lokaumferð ítölsku B-deildarinnar í fótbolta í Genoa í kvöld.
Albert Guðmundsson var í byrjunarliði Genoa og lék þar til í uppbótartíma. Hann gerði annað mark liðsins á 34. mínútu og kom Genoa í 2:1. Albert og félagar höfðu þegar tryggt sér sæti í efstu deild.
Venezia gæti fylgt Genoa þangað, þrátt fyrir 1:2-tap fyrir Parma á útivelli. Mikael Egill Ellertsson lék fyrstu 62 mínúturnar með Venezia, sem endar í áttunda sæti og fer í umspil, eins og Parma.
Hjörtur Hermannsson var allan tímann á bekknum hjá Pisa, er liðið tapaði 1:2 fyrir SPAL á heimavelli. Úrslitin þýða að Pisa endar í ellefta sæti og missir af sæti í umspilinu.