Barcelona tók á móti Real Sociedad í spænsku 1. deildinni í kvöld en leikið var á Nývangi, heimavelli Barcelona. Leikurinn endaði með sigri Real Sociedad, 2:1.
Það var Spánverjinn Mikel Merino sem kom gestunum yfir á 5. mínútu þegar hann skoraði eftir sendingu frá Norðmanninum stæðilega Alexander Sorloth.
Sorloth var svo sjálfur á ferðinni á 72. mínútu þegar hann tvöfaldaði forystu Real Sociedad. Robert Lewandowski náði að klóra í bakkann fyrir Spánarmeistarana á 90. mínútu þegar hann skoraði eftir sendingu frá Ferran Torres.
Barcelona er orðið meistari en sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Real Sociedad því hann kom liðinu í góða stöðu í baráttunni við Villarreal um Meistaradeildarsæti. Sociedad er nú fimm stigum á undan Villarreal þegar bæði lið eiga eftir að spila þrjá leiki.