Bayern München tapaði á heimavelli fyrir RB Leipzig í þýsku 1. deildinni í fótbolta í dag, 1:3.
Eftir tapið er München þó enn á toppi deildarinnar en aðeins stigi á undan Dortmund sem leikur á morgun á móti Augsburg og getur komist í toppsætið með sigri. Aðeins ein umferð er eftir af deildinni og gæti Bayern München hafa verið að henda frá sér titlinum í dag.
Bayern München leiddi í hálfleik með marki frá Serge Gnabry á 25. mínútu, 1:0. RB Leipzig svaraði með þremur mörkum í síðari hálfleik. Fyrstur að verki var Austurríkismaðurinn Konrad Laimer sem skoraði á 65. mínútu. Christopher Nkunku kom Leipzig í 2:1 þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á 76. mínútu og það var svo Dominik Szoboszlai sem skoraði þriðja mark gestanna á 86. mínútu, einnig úr vítaspyrnu.
Með sigrinum tryggði RB Leipzig sér þriðja sæti deildarinnar og mun félagið spila í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.