Íslendingaliði Bayern München tókst ekki að tryggja sér þýska meistaratitilinn þegar liðið heimsótti Bayer Leverkusen í 1. deildinni þar í landi í dag. Lauk leiknum með markalausu jafntefli.
Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í vörn Bæjara. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var ónotaður varamaður og Cecilía Rán Rúnarsdóttir var ekki í leikmannahópnum.
Bayern þurfti á sigri að halda til þess að tryggja sér titilinn en þarf liðið nú að öllum líkindum að bíða í rúma viku eftir öðru tækifæri, þegar það fær Potsdam í heimsókn í lokaumferð deildarinnar.
Það veltur þó á því hvernig leikur Wolfsburg, sem Sveindís Jane Jónsdóttir leikur með, gegn Meppen á morgun fer.
Sem stendur er Bayern á toppi deildarinnar með 56 stig þegar liðið á einn leik eftir en Wolfsburg er í öðru sæti með 51 stig þegar liðið á tvo leiki eftir.