Alexandra mögnuð í Íslendingaslag

Alexandra Jóhannsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn því ítalska.
Alexandra Jóhannsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn því ítalska. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alexandra Jóhannsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði tvívegis fyrir Fiorentina þegar liðið hafði betur gegn Söru Björk Gunnarsdóttur og stöllum hennar í Juventus, 4:2, í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í dag.

Alexandra skoraði fyrsta mark leiksins fyrir heimakonur á 36. mínútu áður en Barbara Bonansea jafnaði metin fyrir Juventus skömmu fyrir leikhlé.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks kom Lineth Beerensteyn gestunum í forystu og var staðan því 2:1, Juventus í vil, þegar flautað var til leikhlés.

Strax í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Milica Mijatovic metin fyrir Fiorentina.

Alexandra skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Fiorentina eftir tæplega klukkutíma leik.

Hún var svo tekin af velli á 71. mínútu. Mínútu áður hafði Sara Björk verið tekin af velli.

Skömmu fyrir leikslok skoraði Veronica Boquete svo fjórða mark Fiorentina, úr vítaspyrnu.

Með sigrinum fór Fiorentina upp fyrir AC Milan, sem Guðný Árnadóttir leikur með, í þriðja sæti A-deildarinnar.

Juventus er í öðru sæti og mun hafna í því þar sem Roma er fyrir margt löngu búið að tryggja sér meistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert