Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, skoraði síðara mark West Ham United þegar liðið vann góðan útisigur á Leicester City, 2:1, í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Hamrarnir náðu forystunni á 18. mínútu þegar leikmaður Leicester varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.
Eftir klukkutíma leik fékk West Ham dæmda vítaspyrnu. Á vítapunktinn steig fyrirliðinn Dagný og skoraði.
Undir blálok leiksins minnkaði Leicester muninn en var það um seinan og sigur West Ham var því niðurstaðan.
Dagný hefur skorað fimm mörk í 19 deildarleikjum á tímabilinu ásamt því að leggja upp eitt mark til viðbótar.