Dortmund vann gríðarlega mikilvægan útisigur á Augsburg í þýsku 1. deildinni í fótbolta í dag, 3:0.
Með sigrinum komst Dortmund upp í 1. sæti deildarinnar þar sem það hefur tveggja stiga forystu á Bayern München fyrir lokaumferðina.
Feliz Uduokhai, varnarmaður Augsburg, fékk að líta rauða spjaldið á 38. mínútu leiksins og það nýttu liðsmenn Dortmund sér í síðari hálfleik.
Sebastian Haller skoraði tvö mörk fyrir gestina, það fyrra á 59. mínútu og það seinna á 84. mínútu. Það var svo Julian Brandt sem innsiglaði sigurinn á þriðju mínútu uppbótartíma með góðu marki.
Dortmund tekur á móti Mainz á heimavelli í lokaumferðinni á meðan Bayern München fer í heimsókn til Köln þar sem liðið þarf að vinna og treysta á að Dortmund tapi sínum leik ef það ætlar að verða þýskur meistari.
Ef Dortmund vinnur þýsku 1. deildina um næstu helgi þá verður það í níunda skipti sem félagið verður þýskur meistari og í fyrsta skipti síðan tímabilið 2011/2012.