FC Köbenhavn hafði betur gegn AGF frá Árósum í leik liðanna í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Liðin buðu upp á markaveislu og endaði leikurinn með sigri heimamanna í FC Köbenhavn, 4:3.
Ísak Bergmann Jóhannesson fékk tækifærið í byrjunarliði FC Köbenhavn í dag en Hákon Arnar Haraldsson var ekki í hóp en hann var í banni. Mikael Neville Anderson var að venju í byrjunarliði AGF.
Heimamenn í FC Köbenhavn komust tveimur mörkum yfir með tveimur mörkum frá Diogo Goncalves en gestirnir höfðu jafnað fyrir hálfleik. Fyrra mark gestanna skoraði Patrick Mortensen og svo skoraði Mikael Neville gott mark á 39. mínútu og jafnaði í 2:2.
Kevin Yakob kom gestunum yfir í upphafi seinni hálfleiks áður en Jordan Larsson jafnaði fyrir heimamenn. Það var svo Ísak Bergmann sem lagði upp sigurmark FC Köbenhavn á Kevin Diks sem skoraði á 87. mínútu leiksins.
Sigurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir FC Köbenhavn en eftir hann er liðið í efsta sæti deildarinnar með 55 stig, fjórum stigum meira en Nordsjælland sem á leik inni á FC Köbenhavn. AGF er í 4. sæti deildarinnar með 47 stig og er í mikilli baráttu við Viborg um að komast í Sambandsdeildina á næsta tímabili.