Alfreð bað liðsfélagana afsökunar

Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Birgir Finnsson í leik með Lyngby.
Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Birgir Finnsson í leik með Lyngby. Ljósmynd/LyngbyBoldklub

Alfreð Finnbogason landsliðsmaður í knattspyrnu hefur beðist afsökunar á rauða spjaldinu sem hann fékk í leik Lyngby gegn OB í dönsku úrvalsdeildinni í gær.

Alfreð var þá rekinn af velli á 17. mínútu fyrir að verja boltann með hendi á marklínu. OB komst yfir úr vítaspyrnunni og vann leikinn að lokum 4:0.

Lyngby er nú í erfiðri stöðu fyrir tvær síðustu umferðirnar, með 24 stig á botninum, en á eftir að mæta bæði AaB og Horsens sem eru bæði með 27 stig. Tvö liðanna falla.

„Ég er afskaplega leiður yfir því sem gerðist og að það skyldi hafa svona mikil áhrif á úrslit leiksins. Þegar ég horfi til baka þá átti ég að sjálfsögðu ekki að gera þetta, en þetta voru ósjálfráð viðbrögð til að forða marki.

Ég bað strákana afsökunar eftir leikinn og ég er mjög leiður yfir þessu fyrir hönd stuðningsfólksins okkar. Þau verðskulduðu annað og meira en svona tap með sínum flotta stuðningi," sagði Alfreð á heimasíðu Lyngby.

„Þetta tap var mikið högg í andlitið en við teljum okkur áfram eiga fína möguleika á að halda sæti okkar í deildinni. Við eigum ótrúlega mikilvægan leik næsta mánudag gegn AaB og þó ég geti ekki verið inni á vellinum sjálfur þá mun ég gera allt mitt til að hjálpa liðinu fram að leiknum," sagði Alfreð sem tekur út leikbannið í umræddum leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert