Mark Arnórs ekki nóg í Íslendingaslag

Hákon Rafn Valdimarsson markvörður Elfsborg fagnaði sigri í kvöld.
Hákon Rafn Valdimarsson markvörður Elfsborg fagnaði sigri í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Arnór Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu skoraði fyrir Norrköping í Íslendingaslag gegn Elfsborg í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Hann kom Norrköping yfir á 29. mínútu leiksins en það dugði ekki til því Elfsborg sneri leiknum sér í hag og vann góðan útisigur, 2:1.

Hákon Rafn Valdimarsson varði mark Elfsborg og Sveinn Aron Guðjohnsen lék fyrstu 57 mínúturnar.

Arnór Ingvi Traustason lék allan leikinn með Norrköping og varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Andri Lucas Guðjohnsen kom inn á fyrir Arnór Sigurðsson á 80. mínútu. Ari Freyr Skúlason var ekki með liðinu vegna meiðsla.

Elfsborg er komið í annað sæti deildarinnar með þessum sigri en Norrköping er í fjórða sæti.

Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn með Kalmar sem vann útisigur á Värnamo, 1:0, og er komið í sjötta sætið.

Í B-deildinni lék Rúnar Þór Sigurgeirsson allan leikinn með Öster og Alex Þór Hauksson í 84 mínútur þegar lið þeirra tapaði 2:1 í toppslag gegn Västerås á útivelli. Öster er nú í fjórða sæti.

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í vörn Rosengård sem gerði jafntefli, 2:2, við Hammarby á útivelli í úrvalsdeild kvenna. Rosengård er í sjöunda sæti eftir níu umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert