Pólverjinn Szymon Marciniak mun dæma leik Manchester City og Inter Mílanó í úrslitum Meistaradeildar karla í knattspyrnu sem fram fer í Istanbúl hinn 10. júní.
Þetta tilkynnti UEFA, evrópska knattspyrnusambandið, í dag en Marciniak, sem er 42 ára gamall, hefur aldrei áður dæmt úrslitaleik í keppni á vegum UEFA.
Hann dæmdi hins vegar úrslitaleik heimsmeistaramótsins í desember á síðasta ári þegar Argentína hafði betur gegn Frakklandi í Katar.
Honum til aðstoðar verða þeir Pawel Sokolnicki og Tomasz Listkiewicz frá Póllandi. Istvan Kovacs frá Rúmeníu verður fjórði dómari og Tomasz Kwiatkowski frá Póllandi verður VAR-dómari.