Souness syndir yfir Ermarsundið

Graeme Souness.
Graeme Souness.

Graeme Souness, fyrrverandi knattspyrnumaður og sérfræðingur á Sky Sports til margra ára, hyggst synda yfir Ermarsundið til styrktar góðgerðarsamtökum sem standa honum nærri.

Souness er sjötugur en lætur það ekki aftra sér að synda 34 kílómetra leið, sem mun taka hann um 16 klukkustundir.

Skotinn mun synda fyrir góðgerðasamtökin DEBRA, sem styðja við fólk sem þjáist af húðsjúkdómnum epidermolysis bullosa, sem lýsir sér í gífurlega viðkvæmri húð sem rifnar, merst og veldur blöðrum við minnstu snertingar.

Souness mun synda með föður 14 ára gamallar stúlku, Islu Grist, sem þjáist af sjúkdómnum.

„Isla er einstakasta manneskja sem ég hef nokkru sinni hitt. Hún gerir mér þetta alltaf, meira að segja á mínum aldri“ sagði Souness í sjónvarpsþættinum BBC Breakfast og barðist við tárin.

„Mér varð kunnugt um sjúkdóminn fyrir fimm árum síðan þegar ég mætti til kvöldverðar í Lundúnum. Þar var ung stúlka sem þjáist af sjúkdómnum, Maya frá Birmingham.

Þá setti ég mig í samband við DEBRA í Skotlandi því ég bjóst við því að það væri þegar verið að sjá um þetta á Englandi. Þá urðum við vinir, er það ekki?“ bætti hann við beindi spurningunni til Islu, sem jánkaði.

„Ég vissi ekkert um þennan sjúkdóm, hann er svo grimmur. Ég vissi að þetta myndi gerast,“ sagði Souness og hélt aftur af tárum.

„Þetta er grimmasti og ljótasti sjúkdómur sem ég veit um. Vinsamlegast kynnið ykkur sjúkdóminn og sjáið hversu hryllilegur hann er fyrir þá sem þjást af honum og fjölskyldur þeirra,“ sagði hann einnig og biðlaði til fólks að styrkja DEBRA-samtökin til hjálpar þeim sem þjást af epidermolysis bullosa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert