José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, setti stórt spurningamerki við þá ákvörðun ítalskra dómstóla um að draga tíu stig af ítalska A-deildarfélaginu Juventus í gær.
Stigin voru dregin af félaginu vegna fjármálamisferlis í tengslum við félagaskipti undanfarin tímabil.
Tilkynning barst til fjölmiðla um stigafrádrátt Juventus stuttu fyrir leik liðsins gegn Empoli í gærkvöldi en leiknum lauk með 4:1-sigri Empoli.
„Þetta er brandari,“ sagði Mourinho í samtali við DAZN eftir 2:2-jafntefli Roma gegn Salernitana í gær.
„Það eru tveir leikir eftir af tímabilinu. Þetta er óþægilegt fyrir okkur, Juventus og alla sem eru að berjast um Evrópusæti. Ég hefði lagt síðustu leiki okkar öðruvísi upp ef ég hefði vitað þetta fyrir fram.
Ég vorkenni Juventus. Þetta eru allt atvinnumenn að vinna vinnuna sína. Þeir þurfa að gjalda fyrir mistök stjórnenda og ákvarðanir sem forráðamenn félagsins tóku,“ bætti Mourinho við.