Spænska knattspyrnufélagið Valencia mun áfrýja áhorfendabanni sem spænska knattspyrnusambandið úrskurðaði að karlaliðið skyldi sæta vegna kynþáttaníðs stuðningsmanna þess í garð Vinícius Júnior, leikmanns Real Madríd, í leik liðanna á sunnudag.
Fjöldi stuðningsmanna Valencia beitti Vinícius grófu kynþáttaníði í leiknum og afréð spænska knattspyrnusambandið því að sekta félagið um 40.000 pund.
Um leið fyrirskipaði sambandið að þeim hluta áhorfendastúkunnar á Mestalla-leikvangi Valencia sem kennd er við argentínsku goðsögnina Mario Kempes skyldi lokað í næstu fimm heimaleikjum liðsins.
Í harðorðri yfirlýsingu frá félaginu segir að það muni áfrýja niðurstöðunni þar sem ósanngjarnt væri að láta slæma hegðun nokkurra stuðningsmanna, sem hafi gerst sekir um kynþáttaníð, bitna á miklum fjölda stuðningsmanna sem hafi ekkert af sér gert.