Van Nistelrooy segir starfi sínu lausu

PSV þarf að hefja leit að nýjum knattspyrnustjóra.
PSV þarf að hefja leit að nýjum knattspyrnustjóra. AFP/Maurice van Steen

Ruud van Nistelrooy, knattspyrnustjóri karlaliðs PSV, hefur sagt starfi sínu lausu.

Van Nistelrooy, sem var sjálfur magnaður markaskorari hjá Manchester United, Real Madríd og PSV á leikmannaferli sínum, lætur þegar í stað af störfum þó einn leikur sé enn eftir af tímabilinu, í lokaumferð hollensku úrvalsdeildarinnar um næstu helgi.

Eftir fundarhöld í gærkvöldi tilkynnti van Nistelrooy stjórn PSV um ákvörðun sína í morgun. Sagði hann að sér væri ekki lengur stætt á því að starfa hjá félaginu þar sem honum þætti stuðningur við sig innan þess ekki nægilegur.

Van Nistelrooy tók við stjórnartaumunum hjá PSV fyrir tímabilið og vann hollenska bikarinn og Johan Cruyff-skjöldinn í leik meistara meistaranna á sínu eina tímabili við stjórnvölinn.

Liðið hafnar þá að öllum líkindum í öðru sæti í hollensku úrvalsdeildinni, þar sem liðið er með þriggja stiga forskot á Ajax í þriðja sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert