Spænski knattspyrnumaðurinn Pepe Reina, markvörður Villarreal, lék í gærkvöldi sinn þúsundasta leik sem atvinnumaður er hann hélt hreinu í 2:0-sigri liðsins á Cádiz í spænsku 1. deildinni.
Reina, sem er fertugur, hefur komið víða við á farsælum ferli en flesta leiki lék hann fyrir Liverpool á árunum 2005 til 2014.
Einnig hefur Reina leikið með stórliðum Barcelona, Bayern München og AC Milan ásamt því að hafa varið mark Napoli, Lazio og Aston Villa um skeið.
Þrátt fyrir að verða 41 árs í sumar er hann hvergi nærri hættur og sagði Reina í samtali við útvarpsþáttinn Sport Today á BBC World Service að hann myndi vilja halda kyrru fyrir hjá Villarreal svo lengi sem félagið vilji halda honum.