Hollenska knattspyrnufélagið AZ Alkmaar hefur úrskurðað 43 stuðningsmenn í bann frá heimavelli þess, AZ-vellinum, vegna hátternis þeirra eftir 0:1-tap karlaliðsins fyrir West Ham United í undanúrslitum Sambandsdeildar UEFA í síðustu viku.
West Ham vann einvígið samanlagt 3:1 og tryggði sér sæti í úrslitum keppninnar, þar sem liðið mætir Fiorentina.
Töluverður fjöldi stuðningsmanna var ekki á eitt sáttur við niðurstöðuna og reyndi að leik loknum að ryðja sér leið í þann hluta áhorfendastúkunnar þar sem fjölskyldumeðlimir leikmanna og starfsfólks West Ham var staðsett.
„AZ hefur úrskurðað 43 manns í bann frá leikvanginum vegna óeirðanna í síðustu viku. Þær taka til gesta sem tóku þátt í misferli í tengslum við undanúrslitin í Evrópukeppni í Alkmaar.
Þetta þýðir alls ekki að það sé ómögulegt að fleiri verði úrskurðaðir í bann. Auk þessarar ákvörðunar félagsins er sakamálarannsókn enn í gangi hjá þar til bærum yfirvöldum,“ sagði í yfirlýsingu frá félaginu.