Knattspyrnumaðurinn Cristiano Ronaldo lét áhugaverð ummæli falla eftir nauman sigur Al-Nassr gegn Al-Shabab í efstu deild Sádi-Arabíu í vikunni.
Ronaldo skoraði sigurmark leiksins á 59. mínútu í 3:2-sigri Al-Nassr en liðið er nú þremur stigum á eftir toppliði Al-Ittihad þegar tveimur umferðum er ólokið.
Ronaldo gekk til liðs við Al-Nassr frá Manchester United í janúar á þessu ári en frammistaða hans í Sádi-Arabíu hefur verið bæði upp og niður.
„Deildin hérna er alltaf að verða sterkari og sterkari og hún verður enn þá sterkari á næsta ári,“ sagði Ronaldo.
„Þessi deild verður, á einhverjum tímapunkti, ein af fimm sterkustu deildum heims en þeir þurfa sinn tíma. Þeir þurfa betri innviði og sterkari leikmenn.
Möguleikarnir hérna eru miklir og þetta er ein mest spennandi deild í heimi eins og staðan er nú,“ sagði Ronaldo.