Stórleikur Rúnars dugði ekki til

Rúnar Már Sigurjónsson fór mikinn fyrir Voluntari í kvöld.
Rúnar Már Sigurjónsson fór mikinn fyrir Voluntari í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Már Sigurjónsson átti stórleik fyrir Voluntari þegar liðið heimsótti Craiova 1948 í umspilsleik rúmensku 1. deildarinnar í knattspyrnu um sæti í Sambandsdeild Evrópu á næsta keppnistímabili.

Leiknum lauk með sigri Craiova 1948 í vítakeppni en Craiova 1948 komst í 3:0 áður en leikmenn Voluntari vöknuðu til lífsins.

Naser Aliji minnkaði muninn fyrir Voluntari á 78. mínútu áður en Rúnar Már minnkaði muninn í eitt mark með marki úr vítaspyrnu á 85. mínútu.

Hann lagði svo upp jöfnunarmark Voluntari þegar sjö mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma fyrir Andrei Dumiter og staðan því orðin 3:3.

Þá var gripið til framlengingar þar sem hvorugu liðinu tókst að skora en í vítakeppninni hafði Craiova 1948 betur, 5:4, en Rúnar Már tók fyrstu spyrnu Voluntari og skoraði úr henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert