Spænska knattspyrnufélagið Valencia áfrýjaði refsingu sem félagið fékk á dögunum fyrir kynþáttaníð stuðningsmanna félagsins gegn Vinícius Júnior leikmanni Real Madrid.
Upprunaleg refsing fól í sér að félagið þyrfti að loka hluta stúkunnar í næstu fimm leikjum og greiða 45 þúsund evrur í sekt, sem jafngildir rúmum 6,7 milljónum króna.
Refsingin hefur hinsvegar verið milduð eftir áfrýjun félagsins og þarf félagið nú að loka hluta stúkunnar í næstu þremur leikjum og sektin hefur verið lækkuð niður í 27 þúsund evrur, sem jafngildir rúmum 4 milljónum króna.
Vinícius Júnior hefur ítrekað orðið fyrir kynþáttaníði í leikjum í spænsku úrvalsdeildinni og náði það ákveðnu hámarki í leiknum á móti Valencia á dögunum. Vinícius var rekinn af velli í leiknum fyrir að svara áhorfendum en var rauða spjald hans dregið til baka nokkrum dögum síðar.
Valencia sendi frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem sagði að félagið myndi áfrýja niðurstöðunni þar sem ósanngjarnt væri að láta slæma hegðun nokkurra stuðningsmanna, sem hafi gerst sekir um kynþáttaníð, bitna á miklum fjölda stuðningsmanna sem hafi ekkert gert af sér.
Nú er ljóst að þetta mun bitna á öllum stuðningsmönnum því einum hluta stúkunnar á Mestalla-leikvanginum mun verða lokað í þrjá leiki.