Bayern München varð rétt í þessu þýskur meistari í fótbolta ellefta árið í röð eftir mikla dramatík.
München vann 2:1 útisigur á Köln en það var Kingsley Coman sem kom gestunum yfir í leiknum á 8. mínútu leiksins. Dejan Ljubicic jafnaði leikinn á 81. mínútu úr vítaspyrnu en Jamal Musiala reyndist hetja Bayern München en hann skoraði sigurmarkið á 89. mínútu og tryggði Bayern München titilinn.
Á sama tíma nægði Dortmund að vinna heimasigur á móti Mainz. Óhætt er að segja að liðsmenn Dortmund hafi ekki höndlað spennuna því liðið var ólíkt sjálfu sér í dag.
Norðmaðurinn Andreas Hanche-Olsen kom Mainz yfir á 15. mínútu og Karim Onisiwo tvöfaldaði forystu gestanna á 24. mínútu. Í millitíðinni hafði Sebastian Haller klúðrað vítaspyrnu á 19. mínútu fyrir heimamenn í Dortmund. Raphael Guerrero minnkaði muninn fyrir heimamenn á 69. mínútu og gaf stuðningsmönnum von. Niklas Süle jafnaði svo leikinn á sjöttu mínútu uppbótartíma, 2:2, en það var ekki nóg því Bayern München vann sinn leik.
Þá verður Union Berlin í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili í fyrsta skipti í sögu félagsins en Union vann Werder Bremen á heimavelli í dag, 1:0 á meðan Freiburg tapaði fyrir Eintracht Frankfurt, 2:1. Union Berlin endar því í fjórða sæti en Freiburg í því fimmta.
Þá féll Schalke í dag eftir stutt stopp í 1. deild en liðið fór upp í deild hinna bestu eftir síðasta tímabil. Schalke tapaði í dag á útivelli gegn RB Leipzig, 4:2. Vitað var fyrir leikinn að Schalke varð að vinna og þýddi tap að liðið væri fallið.
Stuttgart gerði 1:1 jafntefli við Hoffenheim en óvæntur 3:0 sigur Bochum á Leverkusen þýðir að Bochum fer upp fyrir Stuttgart og tryggir sæti sitt í deildinni. Stuttgart endar í 16. sæti deildarinnar og mun mæta liðinu sem endar í 3. sæti næst efstu deildar í umspili um sæti í 1. deild á næsta tímabili. Hertha Berlín var neðst og var fallin fyrir lokaumferðina í dag.