Fyrrum aðstoðarþjálfari Manchester United, Rene Meulensteen, hefur varað fyrrum félag sitt við því að kaupa brasilíska knattspyrnumanninn Neymar í sumar.
Neymar er líklega á förum frá PSG í sumar og er Manchester United iðulega nefnt sem næsti áfangastaður hans.
Meulensteen, sem var aðstoðarþjálfari Sir Alex Ferguson um tíma, segir að Neymar sé prímadonna og hann muni ekki ná að slá Marcus Rashford út úr liðinu.
„Hann er auðvitað klassa leikmaður en ég hef mínar efasemdir um hann, hann er prímadonna.“ sagði Meulensteen.
Neymar hefur spilað fyrir Santos í Brasilíu, Barcelona á Spáni og PSG í Frakklandi. Meulensteen hefur ekki trú á því að enska úrvalsdeildin henti leikmanni eins og Neymar.
„Hann hefur aldrei spilað í ensku úrvalsdeildinni, að spila á Spáni og í Frakklandi er allt annað. Hans besta staða á vellinum er á vinstri kantinum og þar er Marcus Rashford.“ sagði Meulensteen.