Úrslitastund í þýska boltanum í dag

Verður Dortmund þýskur meistari í dag?
Verður Dortmund þýskur meistari í dag? AFP/Christof Stache

Það er mikil spenna fyrir lokaumferðina í þýsku 1. deildinni í fótbolta sem fram fer í dag. Tvö lið eiga möguleika á meistaratitlinum og fjögur lið eiga á hættu að falla úr deildinni. Allir leikir umferðarinnar hefjast klukkan 13:30 í dag.

Flestra augu verða væntanlega á baráttunni um meistaratitilinn en þar er Dortmund í lykilstöðu gegn erkifjendunum í Bayern München. 

Dortmund er í efsta sæti deildarinnar með 70 stig, tveimur stigum meira en Bayern München sem situr í 2. sæti með 68 stig.

Dortmund tekur á móti Mainz á heimavelli en Mainz situr í 9. sæti og hefur að engu að keppa. Bayern München spilar gegn Köln á útivelli en Köln er í 10. sæti deildarinnar og hefur ekki að neinu að keppa heldur.

Bayern München hefur unnið titilinn tíu ár í röð og myndi Dortmund rjúfa einokun München með sigri í dag.

Fjögur lið eiga á hættu að falla

Hertha Berlin er nú þegar fallið úr deildinni og mun liðið leika í 2. deildinni á næsta tímabili.

Bochum, Schalke, Stuttgart og Augsburg eiga öll á hættu að falla úr deildinni í dag.

Schalke er í 17. og næst neðsta sæti deildarinnar með 31 stig og á erfiðan leik í dag en liðið spilar gegn RB Leipzig á útivelli.

Bochum er í 16. sæti með 32 stig og tekur liðið á móti Bayer Leverkusen í dag, en Leverkusen þarf á sigri að halda í Evrópubaráttunni.

Stuttgart er í 15. sæti, einnig með 32 stig og fær liðið Hoffenheim í heimsókn í dag.

Augsburg er svo í 14. sæti með 34 stig og fer liðið til Gladbach þar sem það mætir Borussia Mönchengladbach.

Tvö lið fara beint niður í 2. deild en liðið sem endar í 16. sæti fer í umspil við liðið sem endar í þriðja sæti 2. deildar. Þar koma tvö lið til greina sem mögulegur mótherji, FC Heidenheim eða Hamburger SV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert