Allt undir hjá Íslendingaliðinu

Sævar Atli Magnússon er í byrjunarliði Freys Alexanderssonar í dag.
Sævar Atli Magnússon er í byrjunarliði Freys Alexanderssonar í dag. Ljósmynd/Lyngby

Það er allt undir hjá Íslendingaliði Lyngby þegar liðið tekur á móti Aalborg á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. 

Fyrir leikinn eru lærissveinar Freys Alexanderssonar í neðsta sæti deildarinnar með 24 stig, þremur minna en Horsens og Álaborgarliðið, en það eru síðustu tveir mótherjar Lyngby. 

Með sigri í dag jafnar Lyngby bæði lið að stigum og á þá leik gegn Horsens, á útivelli, í síðustu umferð. Á sama tíma mun Álaborgarliðið mæta Stefáni Teiti Þórðarsyni og félögum í Silkeborg á sínum heimavelli. 

Vegna markatölu er nánast ómögulegt að Lyngby haldi sér uppi geri liðið jafntefli gegn Aalborg í dag, en þá þyrfti í lokaumferðinni að vera ellefu marka sveifla. 

Eins og kom fram síðustu helgi tekur framherjinn Alfreð Finnbogason út leikbann í dag en hann fékk rautt spjald í 4:0-tapinu gegn Odense. Hinir Íslendingar liðsins, þeir Sævar Atli Magnússon og Kolbeinn Finnsson, eru aftur á móti báðir í byrjunarliðið Lyngby. 

Leikurinn hefst klukkan 12:00 að íslenskum tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert