Arnór yfirgefur Norrköping

Arnór Sigurðsson yfirgefur Norrköping í lok júní.
Arnór Sigurðsson yfirgefur Norrköping í lok júní. Ljósmynd/Alex Nicodim

Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson yfirgefur sænska knattspyrnufélagið Norrköping í næsta mánuði þegar að lánssamningur hans rennur út. 

Frá þessu greindi félagið á heimasíðu sinni í dag en samningur Arnórs rennur út 30. júní. 

Arnór gekk til liðs við Norrköping frá CSKA Moskvu á síðasta ári en þar nýtti hann sér úrræði FIFA um að losa sig tímabundið undan samnings við rússneskt lið vegna stríðs Rússa í Úkraínu.

FIFA lengdi í ár úrræði leikmannanna til ársins 2024, þegar samningur Arnórs hjá Moskvuliðinu rennur út, þannig ólíklegt þykir að hann snúi aftur til Rússlands. 

Landsliðsmaðurinn knái lék vel fyrir Norrköping á síðustu leiktíð og hefur fundið sig enn betur á þessu tímabili og hefur skorað fimm mörk í níu leikjum en Norrköping er sem stendur í fimmta sæti deildarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert