Enska ungstirnið Jude Bellingham hefur verið valinn leikmaður ársins í þýsku A-deildinni í knattspyrnu.
Þessi 19 ára gamli enski landsliðsmaður átti frábært tímabil fyrir Dortmund sem missti grátlega af titlinum til Bayern München í lokaumferðinni sem spiluð var á laugardag sl.
Bellingham spilaði 31 leik í deildinni og skoraði í þeim átta mörk og lagði upp önnur fimm. Hann var algjör lykilmaður í liði Dortmund og ljóst var að liðið saknaði hans mjög í lokaleiknum gegn Mainz en Bellingham gat ekki spilað hann vegna meiðsla.
„Á hverju ári sem ég hef verið hjá félaginu hefur ábyrgð mín aukist, ég þarf að halda áfram að vera allstaðar á vellinum og reyna mitt besta til að leggja eitthvað af mörkum sóknarlega og sinna varnarhlutverkinu einnig. Þá verð ég að halda áfram að bæta mig í að stjórna leikjum af miðsvæðinu.“ sagði Bellingham.
Bellingham var fljótur að hrósa liðsfélögum sínum og starfsfólki Dortmund.
„Liðsfélagar mínir, þjálfararnir og annað starfsfólk hefur hjálpað mér að þróa leik minn. Ég kom til félagsins sem hæfileikaríkur strákur en ég hef bætt mig á svo mörgum sviðum og það á ég þeim að þakka.“ sagði Bellingham.
Það verður fróðlegt að fylgjast með hvað verður um Jude Bellingham en hann hefur þrálátlega verið orðaður við spænska stórliðið Real Madrid og búist er fastlega við að hann gangi til liðs við félagið í sumar.