Hættir sem þjálfari meistaranna

Luciano Spalletti verður ekki þjálfari Ítalíumeistara Napoli á næsta tímabili.
Luciano Spalletti verður ekki þjálfari Ítalíumeistara Napoli á næsta tímabili. AFP/Gabriel Bouys

Luciano Spalletti verður ekki þjálfari Napoli á næsta tímabili en þetta staðfesti forseti félagsins, Aurelio De Laurentiis, í sjónvarpsviðtali við ítölsku sjónvarpsstöðina Rai 3 í gær.

Spalletti sem er fyrrum stjóri Roma og Inter hefur gefið það reglulega í skyn að hann myndi yfirgefa Napoli eftir tímabilið þrátt fyrir að félagið vann sinn fyrsta meistaratitil í 33 ár og að forseti félagsins virkjaði klásúlu í samningi hans sem hefði haldið Spalletti hjá félaginu út næsta tímabil.

Forseti félagsins, De Laurentiis, mætti í sjónvarpsþáttinn Che Temp Che Fa á sunnudag þar sem hann sagði að Spaletti hefi ekki viljað halda áfram að þjálfa hjá félaginu.

„Spalletti er frjáls maður. Ef einhver kemur til þín og segist hafa gert sitt besta en að nú vilji hann fara í frí, jafnvel þó hann eigi ár eftir af samningi sínum, hvað gerir maður þá? Ég get aðeins þakkað honum fyrir og leyft honum að vera frjálst til að gera það sem hann vill gera. Ég óska honum alls hins besta.“ sagði De Laurentiis.

Spalletti er 64 ára gamall en hann hefur verið í þjálfun í 30 ár. Hann segir sjálfur að hann þurfi á hvíld að halda eftir tímabilið en hann gerði Napoli að ítölskum meisturum og kom liðinu í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

„Stundum verður aðskilnaður vegna of mikillar ástar. Ég verð ekki áfram hjá félaginu, ég mun fara. Það er ekki möguleiki á að ég skipti um skoðun. Ég sagði félaginu fyrir nokkrum vikum að ég þyrfti að fá eitt ár í frí, ég mun ekki starfa hjá öðru félagi á meðan.“ sagði Spalletti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert