Leikmenn Lyngby borga fyrir áhorfendur

Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Birgir Finnsson fagna marki fyrir Lyngby.
Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Birgir Finnsson fagna marki fyrir Lyngby. Ljósmynd/LyngbyBoldklub

Leikmenn danska knattspyrnuliðsins Lyngby taka þátt í að borga fyrir stuðningsfólk félagsins sem mætir á lokaleik þess gegn Horsens á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Um er að ræða hreinan úrslitaleik um hvort liðanna heldur sér í deildinni, að því tilskildu að AaB nái ekki að vinna á meðan heimaleik sinn gegn Silkeborg. Ef AaB vinnur, falla bæði Lyngby og Horsens, en með Lyngby leika þeir Alfreð Finnbogason, Sævar Atli Magnússon og Kolbeinn Birgir Finnsson, undir stjórn Freys Alexanderssonar, og með Horsens leikur Aron Sigurðarson.

Uppselt er í fjórar stuðningsmannarútur sem fara frá höfuðstöðvum Lyngby í útjaðri Kaupmannahafnar til Horsens á Austur-Jótlandi en um þriggja klukkutíma akstur er að ræða.

Nú hefur fimmtu rútunni verið bætt við og Marcel Römer, fyrirliði Lyngby, staðfesti við bold.dk að leikmenn liðsins hefðu ákveðið að verja uppsöfnuðum sektarsjóði liðsins til þess að greiða fyrir rútuna, í stað þess að nota hann sjálfir.

„Þau hafa stutt geysilega vel við bakið á okkur allt tímabilið og nú er komið að okkur að gefa þeim smávegis til baka og þakka fyrir okkur," sagði Römer.

Lyngby hefur verið á botni úrvalsdeildarinnar í nánast allan vetur en með fimm sigrum og þremur jafnteflum í síðustu tólf leikjum hefur liðið náð að jafna bæði Horsens og AaB að stigum fyrir lokaumferðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert