Mikael á skotskónum og AGF nálgast Evrópusæti

Mikael Anderson í leik með AGF.
Mikael Anderson í leik með AGF. Ljósmynd/AGF

Mikael Anderson, landsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði eitt marka AGF þegar liðið vann sterkan útisigur á Randers, 3:1, í efri hluta dönsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Mikael kom AGF í 2:1 snemma í síðari hálfleik áður en Yves Bisseck innsiglaði sigurinn með þriðja markinu eftir tæplega klukkutíma leik.

Mikael byrjaði leikinn á vinstri kanti hjá AGF og var tekinn af velli einni mínútu fyrir leikslok.

Sem stendur er AGF í 3. sæti með 50 stig, jafnmörg og Viborg í 4. sæti. Nordsjælland er með 54 stig og hafnar í 2. sæti.

Ein umferð er eftir af dönsku úrvalsdeildinni en 2. og 3. sæti gefa beint sæti í undankeppni Sambandsdeildar UEFA á meðan liðið sem hafnar í 4. sæti mætir liðinu sem hafnar í 7. sæti, efsta sæti neðri hluta deildarinnar, í umspili um eitt laus sæti í undankeppninni til viðbótar.

Midtjylland og OB berjast um 7. sætið og mætast einmitt í lokaumferðinni um næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert