Missir líklega af síðasta leiknum

Zlatan Ibrahimovic hefur þurft að láta sér nægja að horfa …
Zlatan Ibrahimovic hefur þurft að láta sér nægja að horfa á flesta leiki AC Milan á tímabilinu sem er að ljúka. AFP&Gabriel Bouys

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic hefur líklega spilað sinn síðasta leik fyrir AC Milan því litlar líkur eru á því að hann nái að spila með liðinu í lokaumferð A-deildarinnar um næstu helgi.

Zlatan, sem er orðinn 41 árs, hefur misst af nær öllu tímabilinu vegna meiðsla og aðeins náð að spila fjóra leiki með AC Milan í deildinni. Hann lék síðast með liðinu gegn Udinese 18. mars og skoraði þá mark liðsins í ósigri á útivelli, 3:1.

Hann hafði sett stefnuna á að ná lokaleiknum sem er á heimavelli gegn Hellas Verona á sunnudaginn en samkvæmt Milannews er hann á eftir áætlun í endurhæfingunni og Stefano Pioli þjálfari reiknar ekki með honum í leikmannahópnum.

AC Milan hefur ekki boðið Zlatan nýjan samning en hann er þó ekki með það í sigtinu að hætta í fótboltanum og hefur verið orðaður við A-deildarliðið Monza.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert