Ronaldo var ekki tilbúinn að stíga til hliðar

Cristiano Ronaldo, fyrirliði portúgalska landsliðsins.
Cristiano Ronaldo, fyrirliði portúgalska landsliðsins. AFP/Karim Jaafar

Roberto Martínez, þjálfari portúgalska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur útskýrt af hverju hann ákvað að láta Cristiano Ronaldo halda áfram að bera fyrirliðabandið hjá liðinu.

Ronaldo verður 38 ára á árinu og hefur bæði leikið flesta landsleiki og skorað flest landsliðsmörk allra í knattspyrnusögunni karla megin. Martínez tók við stjórnartaumunum í janúar síðastliðnum.

„Á vissum tímapunkti fær maður tækifæri til þess að hitta manneskjuna á bak við knattspyrnumanninn og fyrir mér var það mjög skýrt augnablik.

Ég hitti alla leikmennina og maður sér hversu mikils virði það er fyrir þá að spila fótbolta og á hvaða stað þeir eru á ferli sínum. Cristiano var ekki reiðubúinn að stíga til hliðar.

Hann var klár í slaginn og vildi vera hluti af nýja verkefninu. Á þeim tímapunkti var það mjög auðveld ákvörðun að velja hann í mars-verkefnið og taka fótboltatengda ákvörðun út frá því,“ sagði Martínez í samtali við Talksport.

Roberto Martínez, landsliðsþjálfari Portúgals.
Roberto Martínez, landsliðsþjálfari Portúgals. AFP

„Í verkefninu skoraði hann fjögur mörk, var raunverulegur leiðtogi, fyrirliði og er nokkur sem býr yfir reynslu sem enginn annar gerir í heimsfótboltanum.

Hann er leikmaður sem getur náð 200 landsleikjum fyrir þjóð sína og er einhver sem þörf er á að nýta í búningsklefanum,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert