Sú markahæsta ekki valin í enska HM-hópinn

Millie Bright (t.v.) verður fyrirliði Englands á HM.
Millie Bright (t.v.) verður fyrirliði Englands á HM. AFP/Ben Stansall

Sarina Wiegmann, þjálfari enska kvennalandsliðsins í knattspyrnu kvenna, hefur tilkynnt hvaða 23 leikmenn taka þátt á HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar.

Beth Mead, markahæsti leikmaður EM 2022, þar sem England varð Evrópumeistari á heimavelli, er ekki í hópnum þar sem hún er ekki búin að jafna sig fyllilega eftir að hafa slitið krossband í hné í nóvember síðastliðnum.

Landsliðsfyrirliðinn Leah Williamson, liðsfélagi Mead hjá Arsenal, er sömuleiðis fjarri góðu gamni og verður að öllum líkindum frá út árið eftir að hafa slitið krossband í síðasta mánuði.

Niamh Charles, Laura Coombs, Lauren James, Esme Morgan, Katie Robinson og Katie Zelem munu allar taka þátt á sínu fyrsta stórmóti á ferlinum.

Þrír leikmenn, varnarmaðurinn Maya Le Tissier hjá Manchester United, sóknarmaðurinn Jess Park hjá Everton og markvörðurinn Emily Ramsey hjá Everton, verða til taks og æfa með 23-manna leikmannahópnum er liðið undirbýr sig fyrir heimsmeistaramótið.

Millie Bright verður fyrirliði Englands á mótinu.

23-manna hópurinn:

Markverðir: Mary Earps (Manchester United), Hannah Hampton (Aston Villa), Ellie Roebuck (Manchester City).

Varnarmenn: Millie Bright (Chelsea), Lucy Bronze (Barcelona), Jess Carter (Chelsea), Niamh Charles (Chelsea), Alex Greenwood (Manchester City), Esme Morgan (Manchester City), Lotte Wubben-Moy (Arsenal)

Miðjumenn: Laura Coombes (Manchester City), Jordan Nobbs (Aston Villa), Georgia Stanway (Bayern München), Ella Toone (Manchester United), Katie Zelem (Manchester United), Keira Walsh (Barcelona)

Sóknarmenn: Rachel Daly (Aston Villa), Beth England (Tottenham), Lauren Hemp (Manchester City), Lauren James (Chelsea), Katie Robinson (Brighton), Chloe Kelly (Manchester City), Alessia Russo (Manchester United)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert