Birkir Bjarnason kom inn á sem varamaður og skoraði bæði mörk Viking þegar liðið vann 2:0-sigur á Vidar í 64-liða úrslitum norsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í dag.
Markalaust var í leikhléi og kom Birkir inn á í hálfleik.
Skoraði hann svo á 61. og 71. mínútu og tryggði Viking þannig sæti í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar.
Fleiri Íslendingar voru í eldlínunni í dag.
Brynjar Ingi Bjarnason lék fyrstu 65 mínúturnar fyrir HamKam í 8:0-sigri á Mjölner.
Kristall Máni Ingason lék þá fyrstu 67 mínúturnar í afar óvæntu 1:2-tapi Rosenborg fyrir C-deildarliði Stjördals-Blink.
Ísak Snær Þorvaldsson var ekki í leikmannahópi Rosenborg að þessu sinni.
Júlíus Magnússon lék allan leikinn fyrir Fredrikstad sem vann Örn Horten með minnsta mun, 1:0.
Bjarni Mark Antonsson kom loks inn á sem varamaður á 61. mínútu hjá Start, sem hafði betur gegn Halsen, 3:0.