Glódís á meðal tíu bestu í Evrópu

Glódís Perla Viggósdóttir átti glæsilegt tímabil með Bayern München.
Glódís Perla Viggósdóttir átti glæsilegt tímabil með Bayern München. AFP/Justin Tallis

Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í fótbolta, var á meðal tíu bestu leikmanna Evrópu á tímabilinu sem er að líða, samkvæmt knattspyrnumiðlinum Goal.

Landsliðsfyrirliðinn er lykilmaður í þýska stórliðinu Bayern München og átti stóran þátt í að liðið var Þýskalandsmeistari eftir harða baráttu við Wolfsburg.

Þá fór liðið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu, en tapaði þar fyrir Arsenal. Glódís hefur einmitt verið orðuð við Arsenal, sem hefur áhuga á varnarmanninum. 

„Glódís var gríðarlega mikilvægur hlekkur af bestu vörn Þýskalands, sem fékk aðeins sjö mörk á sig í deildinni. Hún var mikilvæg þegar mest var undir.

Þá er hún einnig mjög góð á boltanum og átti fleiri heppnaðar sendingar en nokkur annar leikmaður í þýsku deildinni,“ segir í umsögn miðilsins um Glódísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert