Jónatan Ingi Jónsson reyndist hetja Sogndal þegar hann skoraði sigurmark liðsins í framlengingu í 2:1-sigri á D-deildar liði Lysekloster í 64-liða úrslitum norsku bikarkeppninnar í kvöld.
Sogndal leikur í B-deild og náði forystunni eftir aðeins tveggja mínútna leik.
Heimamenn í Lysekloster jöfnuðu hins vegar metin aðeins fjórum mínútum síðar.
Jónatan Ingi kom inn á sem varamaður í hálfleik og Valdimar Þór Ingimundarson á 79. mínútu.
Sigurmarkið skoraði Jónatan Ingi á 110. mínútu og tryggði þannig Sogndal farseðilinn í 32-liða úrslit bikarkeppninnar.