Knattspyrnukonurnar Pernille Harder og Magdalena Eriksson eru orðnar leikmenn Bayern München í Þýskalandi. Koma þær til þýska félagsins frá Chelsea á Englandi.
Harder er dönsk landsliðskona og hefur leikið 140 landsleiki fyrir þjóð sína. Eriksson hefur leikið 95 landsleiki fyrir sænska landsliðið.
Harder, sem er þrítug, gekk til liðs við Chelsea frá Wolfsburg sumarið 2020 en hún er næstdýrasta knattspyrnukona sögunnar. Eriksson gekk til liðs við Chelsea frá Linköping árið 2017 og hefur hún verið fyrirliði Chelsea undanfarin ár.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir eru allar samningsbundnar Bayern München.