Allir Íslendingarnir á förum frá Bayern?

Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir. Ljósmynd/Bayern München

Þær Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir gætu allar verið á förum frá knattspyrnuliði Bayern München í Þýskalandi.

Þetta herma heimildir mbl.is og Morgunblaðsins, en rætt var um málið í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins.

Glódís Perla er á óskalista enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal, eins og greint var frá í síðasta þætti Fyrsta sætisins.

Þá hafa bæði Cecilía Rán og Karólína Lea fengið afar fá tækifæri með aðalliði Bayern München frá því þær gengu til liðs við það, Cecilía í janúar 2022 og Karólína í janúar 2021.

Cecilía, sem er 19 ára, lék engan leik með aðalliði félagsins á tímabilinu en hún lék þó 16 leiki með B-liði félagsins í þýsku B-deildinni.

Karólína, sem er 21 árs, lék rúmlega 230 mínútur með Bæjurum í þýsku 1. deildinni á leiktíðinni og kom við sögu í sjö leikjum en hún kom inn á sem varamaður í þeim öllum.

„Það er nauðsynlegt fyrir alla landsliðsmenn, sama í hvaða íþrótt það er, að þú sért að spila reglulega,“ sagði íþróttafréttamaðurinn fyrrverandi Guðjón Guðmundsson, betur þekktur sem Gaupi, í Fyrsta sætinu þegar rætt var um Íslendingana í München.

Umræðan um Íslendingana í München hefst á 1:02:00 mínútu en hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert