Sveindís árið 2020: Markmiðið að vinna Meistaradeildina

Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar marki í leik með Wolfsburg gegn …
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar marki í leik með Wolfsburg gegn Arsenal í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í apríl. AFP/Ronny Hartmann

Sveindís Jane Jónsdóttir og liðsfélagar hennar í Wolfsburg mæta Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í Eindhoven í Hollandi á morgun.

Sveindís hefur aldrei farið leynt með það að hún stefni hátt í íþróttinni.

Þegar Wolfsburg festi kaup á Sveindísi undir lok árs 2020 ræddi hún markmið sín við Morgunblaðið.

„Markmið mín eru að bætast í hóp með Söru [Björk Gunnarsdóttur] og vinna Meistaradeildina, að verða önnur íslenskra kvenna til að vinna hana. Það er langtímamarkmið myndi ég segja.

Svo stefni ég að því að spila með þeim bestu í Wolfsburg og spila á móti bestu leikmönnunum. Einnig að gera vel með landsliðinu, halda byrjunarliðssætinu þar eins lengi og hægt er,“ sagði Sveindís, sem þá var 19 ára gömul.

Tveimur og hálfu ári síðar hefur hún þegar náð nokkrum af ofangreindum markmiðum og gæti ekki fengið betra tækifæri en á morgun til þess að uppfylla það stærsta.

Sveindís er lykilmaður hjá Wolfsburg og má vænta þess að hún verði á sínum stað í byrjunarliðinu í úrslitaleiknum, sem hefst klukkan 14 og verður sýndur í beinni útsendingu á YouTube-síðu DAZN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert