Stuðningsmenn Roma veittust að Taylor (myndskeið)

Leikmenn Roma rökræða við Anthony Taylor í leiknum á miðvikudagskvöld.
Leikmenn Roma rökræða við Anthony Taylor í leiknum á miðvikudagskvöld. AFP/Vladimir Simicek

Stuðningsmenn Roma voru ekki á eitt sáttir við enska dómarann Anthony Taylor eftir að liðið tapaði fyrir Sevilla í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla á miðvikudagskvöld.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, sat fyrir Taylor í bílastæðahúsi eftir leikinn og lét hann heyra það.

Vildi Mourinho, líkt og leikmenn og stuðningsmenn liðsins, fá dæmda vítaspyrnu seint í venjulegum leiktíma þegar boltinn fór í hönd varnarmanns Sevilla innan vítateigs.

Þá kvaðst Portúgalinn á blaðamannafundi eftir leik ekki skilja af hverju Sevilla hafi fengið að taka síðustu vítaspyrnu sína í vítaspyrnukeppninni aftur. Gonzalo Montiel tók hana en Rui Patrício varði.

Montiel fékk hins vegar annað tækifæri þar sem dómarar leiksins mátu það sem svo að Patrício hafi farið of snemma af marklínunni. Í annarri tilraun skoraði Montiel og tryggði Sevilla sigur.

Leikurinn fór fram í Búdapest í Ungverjalandi og veittust nokkrir stuðningsmanna Roma að Taylor og fjölskyldu hans á flugvellinum þar í borg.

Myndskeið af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert