Knattspyrnukonan Kristín Dís Árnadóttir sneri aftur á völlinn með liði sínu, Bröndby, í dönsku úrvalsdeildinni í dag eftir tæplega fjórtán mánaða fjarveru.
Kristín sleit krossband í hné í leik með Bröndby í apríl 2022. Hún missti fyrir vikið af síðustu sex umferðunum á því tímabili, og af öllu yfirstandandi tímabili, allt þar til í dag, í næst síðustu umferðinni þegar Bröndby fékk Kolding í heimsókn.
Kristín kom þá inn á sem varamaður á 83. mínútu leiksins sem Bröndby vann mjög örugglega, 5:0.
Fyrir lokaumferð deildarinnar um næstu helgi eru Köge með 59 stig og Bröndby 56 í tveimur efstu sætunum og mætast á heimavelli Köge. Munurinn á markatölu liðanna er þó það mikill að ljóst er að Köge verður danskur meistari. Bröndby þyrfti að vinna leikinn með ellefu marka mun.